Fossárvirkjun.

1940-1969

Efnisyfirlit.
1.  Inngangur

2.  Aðdragandi.
    2.1.            Tilefni.
    2.2.            Ástæður fyrir virkjun.
    2.3.            Kveikjan að framkvæmdum. 

3.  Framkvæmdir.
    3.1.             Áætlanir.
    3.2.            Upphaf framkvæmda.
    3.3.            Gangur framkvæmda.
    3.4.            Loka átakið.

4.  Rekstur.
    4.1.            Reksturinn fyrstu árin.
    4.2.            Endurbygging.
    4.3.            Rekstur eftir endurbyggingu.
    4.4.            Erfiðleikar með reksturinn

5.  Rekstri hætt.

6.  Eftirmáli.

    Myndasíður

    Heimildarskrá

 

 

 

 1.  Inngangur.

Árið 1940 var ráðist í þá stórframkvæmd á bænum Fossi í Hrunamannahreppi að byggja vatnsaflsvirkjun, virkjunin var töluvert stór á þeim tíma, annaði að meðaltali 12 kílóvöttum.

Á þessum árum bjuggu á Fossi hjónin Matthías Jónsson frá Skarði í Gnúpverjahreppi f. 7. nóvember 1875 og Jóhanna Bjarnadóttir frá Glóru í Gnúpverjahreppi f. 3. september 1878 ásamt börnum sínum þeim Bjarna f. 10. apríl 1907, Haraldi f. 16. mars 1908, Guðlaugu f. 17. ágúst 1910, Kristrúnu f. 22. september 1923 eiginmanni Guðlaugar, Guðjóni Guðbrandssyni frá Kaldbak f. 4. mars 1900.

Matthías flutti með fjölskyldu sína að Fossi 1936 frá Syðri-Brúnavöllum á Skeiðum þar sem þau höfðu búið í eitt ár. En áður bjuggu þau í Skarði í Gnúpverjahreppi.

Systkinin Bjarni og Kristrún tóku síðan við búinu formlega 1952 og bjuggu til ársins 1982 er núverandi bændur Hjörleifur Ólafsson og Sigríður Jónsdóttir tóku við búinu.(Heimild, Árnesingar 1 Hrunamenn 1 bindi, Kristrún Matthíasdóttir 2004)

 

 2. Aðdragandi.

Virkjanir voru sjaldgæfar á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar. Þær þekktust helst í Skaftafellssýslu og í Mýrdalnum þar sem nóg var af vatnsföllum sem hentug voru til virkjunar. Skaftfellingar  voru framarlega í nýtingu vatnsafls til hagræðingar fyrir búskap og til að veita birtu og yl í húsakynni þessa tíma. Eiríkur Björnsson í Svínadal var ötull brautryðjandi í túrbínusmíði og smíðaði túrbínur fyrir margan manninn. Það þóttu stór tíðindi þegar rafmagn kom á bæi, það þótti mikil framsýni að virkja. Í dag getum við ekki hugsað okkur að verið án rafmagns, allt atvinnulíf lamast ef rafmagn fer af þó ekki sé nema stutta stund.
(Kristrún Matthíasdóttir 2004)

 

2.1. Tilefni.

Árið 1940 var skorið niður allt fé á Fossi í Hrunamannahreppi vegna mæði- og garnaveiki. Það var ákvörðun sem tekin var á almennum sveitafundi í Hrunamannahreppi til að uppræta útbreiðslu pestarinnar, það var vitað að ekki tækist að lækna sjúkdóminn nema með að skera niður allan stofninn á þeim bæjum sem veikin var komin upp á. Gemlingar frá Matthíasi á Fossi höfðu verið í vetrarfóðrun á Hæli þar sem Karakúl-hrútarnir voru, sem borið höfðu með sér mæði- og garnaveikina til landsins.

Eftir niðurskurðinn ver ekki lengur þörf á öllum mannskapnum heimafyrir, þannig að Haraldur næst elsti sonur þeirra hjóna á Fossi réði sig til starfa hjá skipaafgreiðslu ríkisins. Bjarni Matthíasson sem var að öllu jöfnu heima á veturna ákvað að ráða sig í vinnu hjá vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík.
(Kristrún Matthíasdóttir 2004)

 

2.2. Ástæður fyrir virkjun.

Bjarni var afar framsýnn maður og ávalt í fararbroddi í vélvæðingu hverskonar, hann keypti til að mynda fyrstu jarðýtuna sem flutt var í uppsveitirnar, hann smíðaði fyrsta súgþurrkunar blásarann sem settur var upp í uppsveitunum og smíðaði ámoksturstæki á dráttarvél sem til var á Fossi. Bjarni hafði séð fljótlega eftir að hann fluttist að Fossi möguleikann á að virkja ánna sem rann rétt við bæjardyrnar.
(Bjarni Matthíasson 1980-1983)

 

“Bjarni var svo góður eldsmiður strax á unga aldri að hestajárn og brennimörk sem hann lét frá sér fara voru eftirsótt, enda óvenju svipgóð og vel unnin. Svo var um hverskonar smíðar er hann fékkst við og smærri verk. Bjarni hafði fengið í ættarfylgju góða greind og einkar næma athyglisgáfu. Mér er það einkar minnistætt hversu hlutir, sem hann hafði virt fyrir sér, þótt ekki væri nema í sjónhendingu, stóð  honum ljósir fyrir sjónum og þegar hann hugsaði sér að smíða sambærilega hluti, þá þurfti hann ekki að rýna í teikningar eða bera fyrir sig mælikvarða.

Um skeið vann Bjarni í Vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík. Það er altítt að ungir menn fari í fjáröflunarskyni til vinnu á slíkum vinnustöðum og eflaust  hefur Bjarni haft það í huga öðrum þræði. En hann sá lengra. Skörp athygli og snilli handa hans gerðu vinnubrögð hans í Héðni miklu þýðingarmeiri en venjulegt brauðstrit er mörgum manninum. Og þegar fjölskylda Bjarna nam nýtt land á eyðibýlinu Fossi í Hrunamannahreppi árið 1936, þá kom að góðum notum sú reynsla og þekking, sem hann hafði aflað sér í Héðni. Rafstöð var byggð til nota fyrir heimilið, til lýsingar, hitunar og eldunar, draumsýn sem Bjarni sá um leið og hann kom á staðinn og fann sig nú mann til að láta rætast. Þá smíðaði hann súgþurkunnarblásara sem hann dreif með rafmagni. Dæmi þess voru fá á þeim tíma.”
(Steinþór Gestsson Árnesingar 1999)

 

2.3. Kveikjan að framkvæmdum.

Bjarni kynntist Kjartani Sveinssyni rafvirkjameistara sem þá vann hjá Jóhanni Rönning veturinn 1940.

Kynni Bjarna og Kjartans hófust með því að einn dag er Bjarni á gangi eftir götu einni í Reykjavík er hann sér mann út á götu sem mænir upp á þak á húsi einu og bölvar hressilega, en Kjartan var þekktur af því að bölva hraustlega, gengur Bjarni til hans og gefur sig á tal við hann. Það var algjör tilviljun að þeir hittust á þennan veg þar sem Bjarni þekkti manninn ekkert. Kjartan var úr Mýrdalnum þar sem hefð var fyrir smávirkjunum. Hann kynnti virkjanir í Mýrdalnum fyrir Bjarna og sýndi honum fram á að það væri tiltölulega auðvelt að virkja á Fossi. Bjarni fékk síðan Harald bróðir sinn með í verkið til að sjá um fjárhagslegu hliðina á virkjunin og útvegun á efni.
Upp frá þessu hefst þeirra samstarf við að virkja Fossá.
(Kristrún Matthíasdóttir 2004)

 

3. Framkvæmdir.

Þegar farið er í slíkar stórframkvæmdir sem virkjun Fossár er, þarf að mörgu að hyggja. Það þurfti að fá leyfi, það þurfti fjármagn svo ekki sé talað um allan vélbúnaðinn. Á þessum tíma var ekki auðvelt að verða sér út um vélbúnað. Þá kom sér vel að hafa Kjartan með í ráðum, hann þekkti til verka og vissi hvar helst væri að fá túrbínu og rafal.

Haft var samband við Eirík Björnsson í Svínadal og hann fengin til að smíða Pelton turbinu í virkjunina.
(Kristrún Matthíasdóttir 2004)

 

3.1. Áætlanir.

Áætlunin var sú að hefjast handa við virkjunina á vordögum 1940 og koma virkjuninni í gagnið fyrir veturinn. Ætluðu þeir félagar að stífla ána rétt fyrir ofan fossinn með steyptum vegg sem hlaðið væri að með grjóti til styrktar veggnum, dýpka skildi rás við hlið stíflunar fyrir þrýstirörið og steypa vegg,  Samið var við Eirík Björnsson í Svínadal um að smíða turbinu. Kjartan Sveinsson skyldi leggja raflögn í íbúðarhúsið á Fossi og útbúa töflu fyrir rafstöðina og leggja raflínu að stöðvarhúsinu. Kjartan sá um útvegun á raflagnarefni. Útvega þurfti unnið timbur í þrýstileiðslu sem þyldi 25 metra fallhæð. Bjarni skyldi smíða gjarðir á þrýstileiðsluna og einnig þurfti að útvega rafal. Haraldur aftur á móti sá um að útvega fjármagn til framkvæmdanna.
(Kristrún Matthíasdóttir 2004)

 

3.2 Upphaf framkvæmda.

Framkvæmdir byrjuðu strax og ákveðið hafði verið að ráðast í stíflugerðina, með því að Bjarni hófst handa við að smíða gjarðirnar á þrýstileiðsluna. Og um vorið 1940 um leið og veður leyfði hófust stífluframkvæmdir, byrjað var á að steypa 40 cm þykkan og 14-15m langan vegg þvert yfir ána til að stífla hana. Botnlúga var höfð við neðst á veggnum til að hleypa ánni hjá á meðan einnig var það nauðsynlegt ef til viðgerðar skildi koma. Steypumöl var tekin í ánni  uppi í lóninu, þar var ekki hægt að koma nokkru tæki að til að létta sér vinnuna því engin braut var ofan í lónið. Steypan var hrærð með því að spotti var settur utan um tunnu og hestur hafður á brúninni sem dró í sitthvorn endann eftir í hvora áttina tunnan skildi rúlla, ekki þótti rétt að sá sem stjórnaði hestinum reyndi að klöngrast ofan í gljúfrið á milli hræra því það þótti of mikið vesen.
( Kristrún Matthíasdóttir 2004)

 

3.3. Gangur framkvæmda.

Framkvæmdir gengu ágætlega, að þessu unnu Bjarni og Guðjón Guðbrandsson mágur Bjarna, og Guðlaug systir hans, einnig var Kristrún höfð til að stjórna hestinum sem dró tunnuna sem hrært var í steypan. Hlé var gert á framkvæmdum um há sláttinn en þetta sumar var gjöfult heyskaparár.

Framkvæmdir hófust síðan aftur þegar slætti lauk.

Sprengja þurfti í klaufinni sem þrýstileiðslan skildi koma í  til að dýpka rásina, þetta var bæði erfið og óþénug vinna þar sem mjög bratt var á alla kanta, ekki var hægt að koma nokkru tæki að til að létta sér vinnuna heldur varð að vinna allt með höndunum. Ekki voru þeir Bjarni og Guðjón alltaf einir við vinnu oft komu nágrannar og aðstoðuðu þá við framkvæmdir. Ekki er hægt að telja þá upp hér eða hvað mikið vinnuframlag þeirra var sökum þess að heimildir skortir.
( Kristrún Matthíasdóttir 2004)

 

3.4. Loka átakið.

Af miklu harðfylgi náðist takmarkið að ljúka framkvæmdum um haustið 1940, það var allt tilbúið að hleypa vatni á þrýstileiðsluna, Kjartan var búin að leggja allar raflagnir og tilbúin að setja upp rafbúnaðinn við stöðina en það var einn hængur á og það ekki lítill, það hafði ekki tekist að útvega rafal. Það var nefnilega afar erfitt að útvega rafala á þessum tíma helst var að fá rafala úr skipum og það bjargaði oft Skaftfellingum að það voru tíð strönd á söndunum hjá þeim og ekki voru til skip sem gátu dregið skipin á flot aftur. Ekki var hægt að hefja rafmagnsframleiðslu um haustið eins og ráðgert var, Bjarni fór til vinnu í Héðni í Reykjavík um haustið og vann þar um veturinn.

Einhvernvegin tókst honum að útvega rafal um veturinn 1942, ekki er vitað hvar hann fékk hann en vitað er að rafallin var notaður og helst heldur Kristrún að hann hafi verið úr skipi, en Bjarni vann mikið í skipaviðgerðum hjá Héðni. Virkjunin hafði staðið ónotuð í eitt og hálft ár sökum þess hvað erfitt reyndist að útvega rafal.

Snemma um vorið 1942 komu þeir félagar aftur Bjarni og Kjartan til að ljúka verkinu setja niður rafalin og prufukeyra stöðina stefnt var að því að setja í gang laugardaginn fyrir hvítasunnu. Rafallin var fluttur með bíl að Brúarhlöðum en þaðan  voru aðalsamgöngurnar á þeim tíma, síðan var rafallin settur á sleða og hestur látinn draga sleðann heim að stöðvarhúsinu en hjarn var á jörðu og áin frosin þannig að ferðin gekk vel.

Á laugardaginn 20 maí var allt tilbúið til að hleypa á þrýstileiðsluna nú var mikið að gerast, vatni var hleypt á en viti menn leiðslan seig um 3-4 cm. og sprengdi vegginn á stöðvarhúsinu þar sem leiðslan tengdist við túrbínuna og vatnið fossaði inn í stöðvarhúsið. Nú voru góð ráð dýr ekki datt þeim félögum í hug að gefast upp, þeir ákváðu að brjóta frá leiðslunni og setja saman með tjöru og striga og gyrða utan um með samskonar gjörðum og voru í leiðslunni. Unnið var hörðum höndum sleitulaust við að lagfæra skemmdirnar, um hádegi á annan í hvítasunnu var allt tilbúið til að hleypa á aftur. Í þetta sinn fór allt vel það virkaði allt mjög vel og framleiðslan komst í 12 kw. Sem var helmingi meira en notkun varð.

 

“ Undir hádegi á annan í hvítasunnu, 22 maí var allt sett í gang, þeir sem heima voru stóðu og góndu á rafmagnstöfluna á eldhúsveggnum og sáu með hrifningu hvernig mælarnir fóru af stað og fyrstu ljósin kviknuðu, hlaupið var í hvert herbergi af öðru og kveikt á hverju ljósi og hverjum ofni því alltaf hækkaði spennan, en hún mátti helst ekki fara mikið yfir 220 volt sagði Kjartan, en hann var þá að reyna hversu mikið stöðin gæti framleitt og reyndist það fyllilega 12 kw. Eða 60 amper, en það var meira en helmingi meira en dagleg notkun varð. Svo þurfti að reyna eldavélina, hún hitnaði blessunin, og varð þá fyrst fyrir að hita vatn til þvotta og raksturs handa þeim Kjartani og Bjarna, svo þurfti að sjóða soðningu handa köttunum. Dagurinn var sannkallaður hátíðisdagur.

Mikil er sú gerbreyting, sem fylgdi rafmagninu, öll sú óþrotlega vinna og árvekni sem þurfti við að afla eldiviðar var úr sögunni, allt sót og aska á bak og burt, allt myrkur, allur bæjarkuldinn sömuleiðis og nú var maður ekki í vandræðum með að þurrka þvottinn, hvernig sem veður var, en það var stundum ekki þrautarlaust, einkum á veturna. Mörgum þótti mest um ljósin vert, og víst voru þau mikils virði, en mér þótti enn meira vert um hitan og hreinlætið, en hinsvegar þurfti nú að fara að gera ruslabrennur, sem áður voru óþekktar, áður fór allt rusl í eldinn, sem brunnið gat, svo að hver hefur til síns ágætis nokkuð.”
(Kristrún Matthíasdóttir 2004 b)

 

4. Rekstur

Reksturinn gekk vel fyrst um sinn en Adam var ekki lengi í paradís. Um veturinn 1943 nánar tiltekið 3 mars gerði asahláku á mikinn snjó. Kom þá ógnarlegt hlaup í Fossá sem sópaði stíflunni í burt eins og hún lagði sig ekki var eftir tangur né tetur. Bjarni var þá í vinnu í Héðni í Reykjavík.
(Kristrún Matthíasdóttir 2004 b)

 

4.1. Reksturinn fyrstu árin.

Um vorið var hafist handa við að endurbyggja stífluna, nú skildi hún verða enn öflugri en sú fyrri. Steyptur var stífluveggur sem er á þriðja meter á breidd í botninn um tveir metrar á hæð og steyptur flái að innanverðu efst er veggþykktin um 20 cm. og boltaður við klöppina lengdin sú sama og áður 14-15 metrar. Þessi stífluveggur stendur enn í dag  árið 2004. 

Síðan var framleiðsla hafin að nýju og gekk reksturinn all vel þar til annað áfall dundi yfir 1957 þá kom aurskriða á stöðvarhúsið eftir miklar rigningar og húsið lagðist saman en sem betur fer lagðist veggurinn sem snéri upp í brekkuna yfir vélasamstæðuna og varði hana fyrir skemmdum  þannig að þó stöðvarhúsið eyði legðist í skriðuföllunum skemmdist vélbúnaðurinn ekki.
(Kristrún Matthíasdóttir 2004)

 

4.2 Endurbygging.

Um sumarið 1957 var síðan byggt nýtt stöðvarhús á sama grunni.

Það framkvæmdu þeir Bjarni Matthíasson og Oddleifur Þorsteinsson frá Haukholtum en Oddleifur var þá vinnumaður á Fossi í ígripum.

Allur vélbúnaður var sendur í endurnýjun á meðan þeir félagar byggðu nýtt stöðvarhús. Helstu ástæður fyrir öllu þessu veseni með virkjunina var sandframburður í ánni, þrýstileiðslan sem var úr timbri var orðin míglek og vatnsnýtingin var orðin léleg, það þurfti því að endurnýja þrýstileiðsluna upp í lónið. Svavar Árnason frá Galtafelli tók að sér að sjóða hana saman en það var ákveðið að setja stálpípu í stað timburstokksins, það var fengin stálpípa sem komst inn í timburstokkin þannig að undirstöður stokksins nýttust áfram.
(Oddleifur Þorsteinsson Haukholtum2004, Svavar Árnason 2003)

 

4.3. Rekstur eftir endurbyggingu.

Rafmagnsframleiðsla hófst aftur um haustið eftir miklar endurbyggingu og lagfæringar á vélbúnaði svo ekki sé minnst á nýja þrýstileiðslu sem lak ekkert eftir breytinguna vatnið sem í leiðsluna fór nýttist allt til rafmagnsframleiðslu. Þó var það eitt sem alltaf var til vandræða öll árin sem framleiðsla var í virkjunin það var sandframburður í ánni. Áin átti til að hlaupa þar sem vatnsmagn hennar margfaldaðist á mjög skömmum tíma, eftir slíkt hlaup gat áin fyllt lónið af grjóti og möl sem erfitt gat verið að koma frá sér þar sem ekki var vélgengt í lónið.
(Oddleifur Þorsteinsson Haukholtum 2004.)

 

4.4 Erfiðleikar með reksturinn.

Ekki gekk alltaf áfallalaust að framleiða rafmagn í virkjuninni á Fossi.

Lónið var frekar lítið og framburður gat orðið mikill í hlaupum eins var mikill vikur í vatninu, túrbínan slitnaði mikið sökum þess, þegar virkjunin var endurnýjuð 1957 var túrbínan eins og gatasigti hún var svo slitin þá, aðallega vegna sandburðar, þrýstileiðslan var úr timbri fyrir 1957 og var gisin, mikill leki var úr henni sem jókst með árunum svo nýtingin var fremur léleg. Þó var það alltaf allra verst að ekki skildi vera hægt að koma vél niður í lónið til að hreinsa framburðinn úr lóninu. 1955 eða 1956 bjó Bjarni til þrífót með spili á til að hreinsa framburð úr lóninu, þrífót þennan var hann með ofan í lóninu og mokaði mölinni yfir stífluna, að sögn Oddleifs var þetta mjög öflugt og virkaði ágætlega þar til að í einu hlaupinu hreinsaði áin útbúnaðinn í burtu. Að sögn Oddleifs þurfti að fara margar ferðir upp í lónið þegar skóf snjó í það til að hreinsa af ristunum svo vatnið kæmist í þrýstileiðsluna stundum kom það fyrir að fara þurfti bæði kvölds og morgna. Það er því vel skiljanlegt að Bjarni hafi verið orðin þreyttur á þessu mikla streði við að framleiða rafmagn.

Það er því ekki nema von að hann hafi þrýst á að fá samveiturafmagn þegar það var komið svona nálægt.

Í þessari virkjun var engin sjálfvirk stýring á rennslinu í túrbínuna heldur var það allt handstýrt og síðan fínstilla með eldavélini heima í eldhúsi og mörgum þilofnum þar sem rafmagnstaflan var með mælum á sem sýndi framleiðsluna. 
(Bjarni Matthíasson 1980-1983, Oddleifur Þorsteinsson 2004)

 

5. Rekstri hætt.

Árið 1962 kom samveiturafmagn að Haukholtum, en að Fossi er tæplega 3 km. Loftlína frá Haukholtum. Samveiturafmagnið var miklu öruggara,   á þessum tíma var farið að nota mjaltavélar til að mjólka kýrnar, þá þurfti að vera öruggt rafmagn bæði kvölds og morgna en það var ekki alltaf hægt að stóla á að það væri nóg vatn til staðar í lóninu þegar mjólka þurfti, þá sá Bjarni kosti þess að fá samveiturafmagn en á þeim tíma var ekki lagt rafmagn heim á alla bæi, þeir þurftu að vera innan marka reglna sem rarik (Rafmagnsveitur ríkisins) setti sér, en það var að ekki skyldi lína heim á bæi vera lengri en 2,5 km. Þannig að ekki fékkst samveiturafmagn um leið og það kom að Haukholtum. Það liðu nokkur ár þar til hægt var að herja á að fá samveiturafmagn heim að Fossi, það var ekki fyrr en 1965, Bjarni bauðst til að lána rarik fyrir kostnaðinum sem var aukalega vegna lengri línu til hans en reglur kváðu um.
(símaviðtal við Lárus hjá Rafmagnsveitu ríkisins Hvolsvelli.2004)

 

6. Eftirmáli.

Heimildir að þessum skrifum eru samræður við Kristrúnu Matthíasdóttir sem hefur búið á Fossi frá árinu 1936 er hún fluttist hingað með foreldrum sínum og systkinum, einnig hafði Kristrún skrifað hjá sér helstu þætti um virkjunina í upphafi. Einnig átti ég samtal við Oddleif Þorsteinsson í Haukholtum sem sagði mér frá sínum afskiptum af virkjuninni. Haustið 2003 sátum við Svavar Árnason frá Galtafelli að snæðingi og barst þá talið að því þegar Svavar var á Fossi við virkjunin en hann hafði séð um allt viðhald á túrbínunni, og sett upp þrýstipípuna þegar skipt var um hana og stálrör sett í stað tréleiðslu, Svavar var mjög lagtækur suðumaður, við ræddum un virkjunina og allt vesenið sem var með reksturinn á henni. Við þessa upprifjun opnuðust augu mín fyrir að það væri nauðsynlegt að koma sögu þessarar virkjunar á blað svo hún glataðist ekki.

Ég ritari þessara endurminninga um virkjunina á Fossi kynntist Bjarna 1975 er ég kom fyrst að Fossi, þá áskynjaði ég það strax að þarna hefði ég hitt mjög merkan mann, upp frá því fjölgaði komum mínum mjög að Fossi, það var síðan 1982 að við hjónin keyptum jörðina af þeim systkinum og tókum við búskapnum, það er næsta víst að búskapartíð okkar hefði ekki orðið löng hefðum við ekki notið leiðsagnar þeirra systkina. Við eyddum oft löngum stundum í að spjalla um allt milli himins og jarðar. Hann hafði sagt mér frá flestu varðandi þessa virkjun áður en hans dagar voru allir, en hann lést um vorið 1983 þá ný orðinn 76 ára gamall.

Þó ritaðar heimildir séu ekki miklar þá eru sumir að þeim mönnum sem komu að þessum framkvæmdum á lífi enn og hafa staðfest sögu virkjunarinnar, það væri eflaust hægt að skrá ýmislegt fleira sem er tengt þessari virkjun því margur svitadropinn lak við þessar framkvæmdir og oft á tíðum mjög erfitt að halda henni gangandi sérstaklega í kulda og skafrenning þegar þurfti mikið við að hafa til að halda aðrennslisristinni opinni. Erfiðleikar voru oft á tíðum all miklir, bæði voru samgöngu mjög erfiðar og erfitt var að afla hráefnis til framkvæmda.


Fallhæð 25m 
Leiðslan í stöðvarhúsið var tekin vinstramegin við klettin.

 
Lónið


Lónið,
Hér sést hvað stíflan er farin að gefa sig.

 

Heimildarskrá.

 • Kristrún Matthíasdóttir veturinn 2004. Viðtöl mín við Kristrúnu um gerð rafstöðvar á Fossi.
 • Kristrún Matthíasdóttir. 1992. Minningarbrot  um upphaf virkjunarinnar.
 • Oddleifur Þorsteinsson veturinn 2004. Viðtöl mín við Oddleif um hans þátt í rafstöðvarsmíðinni.
 • Steinþór Gestsson úr minningargrein er hann skrifaði um Bjarna Matthíasson og birtist í Íslendingaþætti Tímans, endurskrifað úr Árnesingar I Hrunamenn I bls.99
 • Svavar Árnason haust 2003. Viðtal við hann um byggingu rafstöðvar á Fossi.
 • Þorsteinn Jónsson og Halldór Gestsson. 1999. Árnessýsla I, Hrunamenn, Ábúendur og saga Hrunamannahrepps frá 1890 . Fyrra bindi. Byggðir og bú ehf. Reykjavík.
 • Haft var símasamband við Rafmagnsveitur ríkisins á Hvolsvelli vegna ártala á línulögnum að Haukholtum og Fossi, fyrir svörum var Lárus starfsmaður Rarik.
 • Svarthvítar myndir á myndasíðum, eign Kristrúnar Matthíasdóttur.
 • Þakkir til allra þeirra er aðstoðuðu við verkið.
 • Guðmundur Sæmundsson fyrir leiðsögn og hvatningu.
 • Brynja Hjörleifsdóttir fyrir yfirlestur og uppsetningu.
 • Bjarni Hjörleifsson fyrir myndatöku.
 • Kristrúnu Matthíasdóttir fyrir leiðsögn, prófarkalestur, aðganginn að myndaalbúmi hennar og frásögn bæði munnlegri og ritaðri.