Jörðin Foss í Hrunamannahreppi stendur í 200 metra yfir sjáfarmáli, styðst er til sjáfar í Hvalfjörð 64 km. Jörðin er allstór, eða um 1800 ha að mestu heiðarland.

Á Fossi er stunduð mjólkurframleiðsla, tún eru um 80 ha.

Samkvæmt samantekt í bókinni Árnesingar I. Hrunamenn 1. bindi þá stendur:

               

Foss er landmikil jörð, bæði að þurrlendi og votlendi. Stendur bærinn vestan undir hárri hlíð og horfa bæjardyr mót Jarlhettum og Langjökli, en foss hár og hvítur dynur að bæjarbaki. Er beitiland víðáttumikið og gott. Árni Magnússon segir svo í Jarðabók sinni: „Útigangur er hér góður, þegar svo leggjast veður.“ Þá er gróður fjölbreyttur og gott skjól í öllum áttum.

Voru engjar lélegar og slægjur reytingssamar, en ræktunarmöguleikar miklir og ræktunarland gott á þurrum móum og framræst. Áður var skógarítak í Tungufellsskógi sem nú er gjöreytt. Var þar lengi heimilisrafstöð en Foss þiggur nú rafmagn frá samveitu.